Leiklist stjórnmálanna

Hádegisfundur á vegum EDDU-öndvegisseturs og Alþjóðamálastofnunar, miðvikudaginn 18. maí, kl. 12.00-13.15 í Odda 101.

Oft er talað um stjórnmálin sem leiksvið og um stjórnmálamenn sem leikara, en allt frá fornöld hafa leikrænir tilburðir stjórnmálamanna verið stjórnspekingum umhugsunarefni. Þessi leiklist stjórnmálanna spannar vítt svið sem nær allt frá lýðskrumi og ímyndarsköpun til dramatískra tilburða stjórnmálaleiðtoga til að höfða til almennings á ögurstund. Á síðustu áratugum hafa komið fram aðsópsmiklir stjórnmálamenn sem sumir hafa átt að baki feril sem leikarar, s.s. Ronald Reagan, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og Arnold Schwarzenegger, fyrrverandi ríkisstjóri Kaliforníu. Aðrir kunna að hafa hefðbundnari bakgrunn en nýta sér engu að síður tæki leiklistarinnar. Núverandi borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, hefur jafnvel gengið svo langt að beita markvisst aðferðum trúðsins. Nýrri andófshreyfingar nýta sér einnig óspart aðferðir leikhússins. Þannig bendir ýmislegt til þess að í pólitískum avant garde hreyfingum samtímans séu stjórnmál og leiklist eða leikrænar aðferðir að renna saman. Frummælendur á þessum hádegisfundi munu velta fyrir sér hinu leikræna eðli stjórnmála frá afturhaldi til byltingarhreyfinga og hvað það merkir fyrir stöðu stjórnmála í samtímanum.

Frummælendur fundarins eru þrír: Sigríður Þorgeirsdóttir, heimspekingur, en hún mun fjalla um leiklist stjórnmálanna og avant garde pólitískar hreyfingar. Stjórnmálafræðingurinn Ólafur Þ. Harðarson mun síðan tala um leikræna tilburði stjórnmálamanna og beitingu þeirra í kosningabaráttum. Að endingu mun Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, bókmenntafræðingur, fjalla um kosningabaráttu Besta flokksins sem pólitískt leikhús.

Öll velkomin!