Hádegisfyrirlestrar RIKK

Hinn 27. janúar næstkomandi hefst fyrirlestraröð Rannsóknastofu í kvenna – og kynjafræðum (RIKK) á vormisseri. RIKK er ein helsta samstarfsstofnun EDDU – öndvegisseturs. Fyrirlestrarnir verða haldnir í stofu 132 í Öskju og verða annan hvern fimmtudag. Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) hefur staðið fyrir hádegisfyrirlestrum frá því árið 1985 þegar áhugahópur um stofnun RIKK var settur á laggirnar. Árið 1991 var RIKK stofnuð og á því 20 ára afmæli nú á 100 ára afmælisári Háskóla Íslands. Í ár hefst dagskrá RIKK með fyrirlestri Ástríðar Stefánsdóttur, dósents í siðfræði við Menntavísindasvið: „Frelsi eða höft? Staðgöngumæðrun og staða kvenna.“ Fjölmargir aðrir fyrirlestrar fylgja í kjölfarið, til dæmis mun Sigrún Sigurðardóttir, doktorsnemi við Íslensku og menningardeild og styrkþegi EDDU, flytja fyrirlesturinn „Af ástæðuríkum ótta: Konur sem hælisleitendur“. Einnig mun Jyl Josephson, dósent í stjórnmálafræði við Rutgers-háskóla í Bandaríkjunum, flytja fyrirlesturinn „Obama’s Fatherhood Initiative: New Fathers or Neopatriarchy?”, en Jyl er Fulbright kennari á vegum RIKK og þátttakandi í EDDU-öndvegissetri.