Freistnivandi og ábyrgð í ljósi einkavæðingar

8. fyrirlesturinn í fyrirlestraröðinni Eilífðarvélin, sem Þjóðmálastofnun og EDDA – öndvegissetur standa fyrir, verður haldinn föstudaginn 5. nóvember klukkan 12.30 í stofu 104 á Háskólatorgi.

Forsenda einkavæðing íslenskra banka, líkt og annars staðar, var sú að fólk færi betur með eigið fé en annarra og því væri svo mikilvægum fyrirtækjum betur komið í höndum einkaaðila en ríkisvaldsins. Í þessum fyrirlestri verður fjallað um þessa hugmyndafræði út frá fjármálakreppunni og þeirri staðreynd að ríkið veitti bönkum víða um heim ríkisábyrgð með því að vera lánveitandi til þrautavara. Að auki voru fundnar upp afurðir á fjármálamarkaði sem drógu markvisst úr ábyrgð einstaklinga.

Salvör Nordal er forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Hún lauk Mphil prófi í heimspeki félagslegs réttlætis frá háskólanum í Stirling og vinnur að doktorsritgerð í heimspeki við háskólann í Calgary.

Upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á vefsíðu Eilífðarvélarinnar: http://ts.hi.is/eilifdarvelin/