Dr. Pasquale Pasquino, prófessor í lögfræði og stjórnmálum við New York-háskóla og rannsóknarprófessor við CNRS í París, heldur opinn fyrirlestur þriðjudaginn 31. maí 2011. Erindið, sem ber heitið „Stjórnarskrárgerð: formgerðir og framkvæmd“ [Forms and Actors of Constitution Making], fer fram í Odda, stofu 101, kl. 15:00.

Fyrirlesturinn er haldinn á vegum EDDU – öndvegisseturs í samstarfi við franska sendiráðið á Íslandi.

Pasquino er leiðandi fræðimaður á sviði stjórnmálaheimspeki í Bandaríkjunum, Frakklandi og á Ítalíu. Sérsvið hans nær yfir stjórnmálaheimspeki Aristótelesar, Machiavellis, Hobbes, Lockes, þýsk stjórnmálafræði (þ. Staatslehre) á 17. og 18. öld, stjórnmála- og stjórnarskrárkenningar um frönsku byltinguna, pólitíska og lagalega hugmyndafræði í Weimar lýðveldinu, skrif Carl Schmitts og Michel Foucaults. Pasquino hefur enn fremur skrifað bækur og greinar um sögu og kenningar stjórnarskrárfestu og rannsakar um þessar mundir hlutverk dómstóla í Evrópu og Bandaríkjunum við að ákveða hvort lög standist stjórnarskrá.

Lýsing á fyrirlestri Pasquinos:

Ferlið við gerð nýrrar stjórnarskrár á Íslandi á sér stað við óhefðbundnar aðstæður. Í fyrirlestrinum verður það skoðað í samanburði við stjórnarskrárgerð í öðrum löndum. Þegar stjórnarskrá er samin af stjórnlagaþingi er það yfirleitt gert i þeim tilgangi að tjá stjórnarskrárbundið vald fólksins við stjórnkerfisbreytingar eða stofnsetningu nýrra pólitískra samfélaga eða eftirlendna. Reynsla Indlands er gott dæmi um hið síðarnefnda. Reynsla Þýskalands, Japans og Ítalíu eftir seinni heimstyrjöldina eða Suður-Afríku við endalok aðskilnaðarstefnunnar eru dæmi um hið fyrrnefnda. En jafnvel í kjölfar djúpstæðrar stjórnmála- og efnahagskreppu fara rótgróin lýðræðisleg stjórnarkerfi á borð við hið íslenska yfirleitt hefðbundnar leiðir við endurskoðun stjórnarskrár, rétt eins og gert er ráð fyrir í 79. grein stjórnarskrár Íslands. Í þeim skilningi má segja að ferlið við gerð nýrrar stjórnarskrár sem á sér stað um þessar mundir á Íslandi eigi sér ekki skýrar hliðstæður.

Fyrirlestur Pasquinos er þriðji og síðasti fyrirlesturinn sem EDDA stendur fyrir á vormisseri 2011 í samstarfi við Institute of Advanced Studies in the Social Sciences í París (EHESS) og franska sendiráðið á Íslandi. Hann er liður í samstarfsverkefni EDDU og EHESS um stjórnarskrárgerð og pólitísk og réttarfarsleg úrræði á umbreytingatímum (transitional justice) en fyrr á árinu fluttu Jon Elster, Robert K. Merton prófessor í félagsvísindum við Columbia-háskóla í New York, og Dr. Yohann Aucante, fræðimaður við Institute of Advanced Studies in the Social Sciences í Paris, fyrirlestra.