Laugardaginn 4. desember 2010 efnir Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum í samstarfi við EDDU-öndvegissetur til málþings til heiðurs Helgu Kress, prófessors emeritus við Háskóla Íslands. Málþingið verður haldið í Hátíðarsal, Aðalbyggingu Háskóla Íslands, kl. 10.30-18.00.

Helga Kress er brautryðjandi á sviði norrænna miðaldabókmennta og íslenskrar bókmenntasögu. Helga hefur gefið út fjölda rita um rannsóknir sínar og haldið um þær fyrirlestra, bæði hér á landi og erlendis. Þá hefur hún verið virk jafnt í íslenskri sem norrænni útgáfustarfsemi um konur og kynferði í bókmenntum.

Helga er fræðimaður sem hefur frá upphafi staðið fyrir öflugri kynningu á nýstárlegri, kvennafræðilegri og róttækri bókmenntakenningu á  Íslandi. Með rannsóknum sínum, sem oft hafa mætt andstöðu innan karllægrar akademíu, hefur hún opnað nýja sýn inn í heim íslenskra bókmennta og bókmenntasögu og í raun umbylt viðteknum hugmyndum um íslenskan menningararf.