Laugardaginn 20. nóvember efna EDDA – öndvegissetur og Ritið til málþings um háskólastarf og samfélagslegt hlutverk háskóla.
Málþingið verður haldið í Háskóla Íslands, stofu 101 í Odda, klukkan 13.00-17.00.
Dagskrá
13.00-13.10: Guðni Elísson: Þegar vissan ein er eftir. Hvað gerist þegar kreddur taka völd í háskólum?
Í kjölfar hrunsins hafa spurningar vaknað um samfélagslega ábyrgð háskólakennara, mótspyrnu gagnrýnnar hugsunar í vestrænum markaðssamfélögum og hvort fræðimenn geti miðlað annarri veruleikasýn til almennings en þeirrar sem ráðandi er. En hafa kreddurnar sem keyrðu íslenskt efnahagskerfi í þrot í raun og veru látið undan síga?
13.10-13.30: Sverrir Jakobsson: Þróun hins gagnrýna háskólasamfélags.
Fyrstu háskólarnir urðu til í Evrópu á 13. öld, en þeir voru að mörgu leyti arftakar eldri stofnana sem þróuðust á 11. og 12. öld og eiga sér að vissu marki rætur utan Evrópu. Frá upphafi var það eitt af megineinkennum háskóla að þeir voru sjálfstæðar stofnanir. Það gerði þá upp að vissu marki óháða afskiptum veraldlegs og geistlegs yfirvalds. Sjálfstæði háskóla hefur hins vegar verið ýmsum takmörkunum háð og verður hér fjallað um nokkrar helstu hömlur á því í sögulegu ljósi.
13.30-13.50: Irma Erlingsdóttir: Sú gamla kemur í heimsókn. Háskólinn á markaðstorginu.
Markaðs-og stofnanvæðing háskólastarfs verður sett í samhengi við ríkjandi valdakerfi og stöðu háskóla innan þeirra. Sjónum verður beint að áhrifum skrifræðis- og kerfishugsunar – sem birtist m.a. í úttektum „embættismanna“ á gæðum rannsókna og kennslu. Fjallað verður um það hvernig markaðshugmyndafræði og „árangursmælingar“ í nafni „þekkingarvalds“, þar sem byggt er á fyrirtækjamenningu, getur hamlað frumleika og nýsköpun og ýtt undir einsleitni í fræðastarfi. Krafan um þekkingarhagkerfið hefur gert háskóla að miðlægu fyrirbæri í samfélaginu, en með þeim afleiðingum að oft er litið á þekkingu sem vöru og afsprengi tækniþróunar í stað andlegrar vinnu.
13.50-14.10: Páll Skúlason: Háskólar eiga að vera vígi gagnrýninnar hugsunar.
Í lestrinum verður fjallað um háskóla í ljósi samfélagslegrar þróun síðustu áratugi og um mikilvægi þess að skýra og skerpa háskólahugsjónina andspænis þeim öflum innan háskóla sem utan sem hafna gildi hennar.
14.10-14.30: Njörður Sigurjónsson: Geta stjórnunarfræði verið gagnrýnin?
Stjórnunarfræði (“management studies”) er stórt svið innan margrar háskóla og vinsælt fag á heimsvísu. Hér er átt við stjórnunarfræði sem fjalla um stjórnun fyrirtækja, markaðsmál, auðlindir og rekstur í víðu samhengi og sem er spyrt við við margvíslegustu svið, s.s. “mannauðsstjórnun” og “menningarstjórnun”. Þó lítið farið fyrir umræðu um stöðu stjórnunarfræða innan háskóla og sem fræði- og kennslugreinar í íslensku fræðasamfélagi þá hefu nokkuð verið fjallað um það af fræðimönnum og sérstaklega innan greinar sem nefnd er gagnrýnin stjórnunarfræði (“critical management studies”). Fjallað verður í erindinu um gagnrýnin stjórnunarfræði og velt upp, í ljósi umræðu í kjölfar íslenska efnahagshrunsins, spurningum um möguleika þess að stunda gagnrýni innan stjórnunarfræða.
14.30-15.00: Pallborð (Sverrir Jakobsson, Irma Erlingsdóttir, Páll Skúlason og Njörður Sigurjónsson). Stjórnandi Jón Ólafsson.
15.00-15.30: Hlé.
15.30-15.50: Birna Bjarnadóttir: Í ríki sjoppunnar.
Spurt verður um samhengið í kreppu samfélags og háskóla samtímans og hvers vegna hugvísindin bregðast gagnrýnishlutverki sínu á tímum eins og okkar.
15.50-16.10: Salvör Nordal: Starf vísindamanna og áhrif markaðshyggjunnar.
Fjallað verður um hlutverk vísindamanna í samfélaginu út frá kenningum um fagstéttir og fagmennsku og einkum aukin tengsl vísinda við einkafyrirtæki og markaðssjónarmið. Sérstaklega verður rætt um markaðssetningu vísindaniðurstaða sem birtist meðal annars í erfðaprófum sem einstaklingar geta fengið milliliðalaust á netinu og spurt hvaða áhrif slík framsetning á vísindum geti haft viðhorf almennings og starf vísindanna.
16.10-16.30: Viðar Hreinsson: Gagnrýnið háskólasamfélag – lol.
Háskólinn og kirkjan eru stofnanir sem eiga sameiginlegar rætur og byggjast á sérstakri sambúð við sannleikann. Stofnanir virðast oft hafa það meginmarkmið að halda sjálfum sér við. Því er ekki úr vegi að þreifa á ýmsum birtingarmyndum og helgisiðum þessara tveggja stofnana sem telja sig vera meðal helstu máttarstólpa samfélagsins. Í kjölfarið má síðan velta fyrir sér hvort þær myndi með einhverjum hætti gagnrýnin samfélög eða jarðveg fyrir gagnrýna hugsun.
16.30-17.00: Pallborð (Birna Bjarnadóttir, Salvör Nordal og Viðar Hreinsson). Stjórnandi Guðni Elísson.
17.00: Jón Ólafsson: Ráðstefnulok.
Boðið verður upp á léttar veitingar eftir að ráðstefnunni lýkur