Frjálshyggjan og lýðræðið

12. fyrirlesturinn í fyrirlestraröðinni “Eilífðarvélin” sem Þjóðmálastofnun og EDDA – öndvegissetur standa fyrir.

Föstudaginn 26. nóvember, klukkan 12.30. Háskólatorg, Stofa 104.

Stefán Snævarr hyggst verja lýðræðishugsjónina gegn gagnrýni frjálshyggjumanna um leið og hann viðurkennir að ákveðinn sannleikskjarni er í þessari gagnrýni. Hann hyggst í þessu samhengi verja hugmyndina um samræðulýðræði. Frjálshyggjumenn telja að lýðræði sé tæki, ekki takmark, einstaklingsfrelsið sé takmarkið, ek…kert sé því til fyrirstöðu að einstaklingsfrelsi dafni í einræðisríki. Víðfeðmt lýðræði sé beinlínis ógnvaldur frelsisins, jafnvel venjulegt fulltrúalýðræði geti ógnað því. Einstaklingsfrelsi sé forsenda lýðræðis en ekki öfugt, án frjálsra markaðshátta er lýðræði ekki mögulegt. Vegna þessarar meintu ógnar við einstaklingsfrelsið vilja sumir öfga-frjálshyggjumenn lýðræðið feigt, aðrir að kosningaréttur verði takmarkaður við þá sem eiga lágmarkseign. Hófsamari frjálshyggjumenn láta sér nægja að vilja að lýðræði lúti reglum, sé ekki taumlaust og sé eingöngu fulltrúalýðræði sem hafi mjög takmarkað vald.

Stefán gagnrýnir þessar hugmyndir og bendir á að lýðræðislegar kosningar fóru fram í Póllandi undir lok kommúnistatímans meðan ríkið átti enn 90% af framleiðslutækjunum. En vel má vera að einhvers konar markaðskerfi sé forsenda þess að lýðræðið festist í sessi og dafni. Einnig bendir hann á að Svisslendingar hafa búið við víðfeðmt, opið lýðræði um aldaraðir án þess að frelsi og markaður hafi beðið tjón af því.  Auk þess byggir gagnrýni frjálshyggjunnar á vafasömum hugmyndum um frelsi, betri skilgreiningar á frelsishugtakinu sýni að frelsinu þurfi ekki að vera hætta búinn af lýðræði. Þá er engin ástæða til að takmarka kosningarétt við eign.

Stefán gagnrýnir hugmyndirnar um þversögn hópviljans eða meirihlutaræðisins. Þessar meintu þversagnir eru hreinar hugarsmíðar sem vart snerta veruleikann nema í einstaka undantekningartilvikum. Lýðræðislegar kosningar endurspegla nokkurn veginn meginhugmyndir kjósenda um stjórnmál, þýskir kjósendur voru stjórnlyndir árið 1933 og kusu nasista yfir sig, Bandaríkjamenn og Bretar voru frjálslyndir og það endurspeglaðist í kosningaúrslitum.

Stefán Snævarr er fæddur í Reykjavík árið 1953. Hann lærði heimspeki í Noregi og Þýskalandi og gegnir nú prófessorsstöðu í heimspeki við Háskólann í Lillehammer. Hann hefur gefið út fjölda bóka á ýmsum málum, síðast hjá Rodopiforlaginu í Hollandi og ber sú bók heitið Metaphors, Narratives, Emotions. Their Interplay and Impact. Hann skrifar nú bók um frjálshyggjuna á íslensku.
Upplýsingar um fyrirlestraröðina er að finna á vefsíðu Eilífðarvélarinnar: http://www.ts.hi.is/eilifdarvelin/