Jon Elster, Robert K. Merton prófessor í félagsvísindum við Columbia-háskóla í New York, hélt opinn fyrirlestur þriðjudaginn 12. apríl 2011. Fyrirlesturinn, sem bar heitið „Hvernig er best að halda stjórnlagaþing?“ [The Optimal Design of a Constituent Assembly], fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands, Aðalbyggingu, kl. 16:00.

Fyrirlesturinn var haldinn á vegum EDDU – öndvegisseturs í samstarfi við franska sendiráðið á Íslandi og innanríkisráðuneyti Íslands.

Jon Elster er í hópi fremstu félagsheimspekinga heims. Hann varði doktorsritgerð sína við Sorbonne-háskóla í París, þar sem hann vann undir leiðsögn Raymond Aron. Hann er Robert K. Merton prófessor í félagsvísindum við Columbia-háskóla og heiðursprófessor við Collège de France í París. Hann hefur m.a. hlotið Jean Nicod verðlaunin. Framlag hans er á fjölmörgum sviðum félagsvísindarannsókna og hugmyndasögu. Elster hefur fjallað sérstaklega um stjórnarskrárfestu og pólitísk og lagaleg úrræði á umbreytingaskeiðum eftir stjórnkerfisbreytingar (t.d. í kjölfar byltinga, borgarastyrjalda eða annarra samfélagsáfalla) [transitional justice].

Lýsing á fyrirlestri Elsters:

Í erindinu byggir Elster að hluta til á kenningum Jeremys Benthams um Pólitíska taktík [Political Tactics]. Hann færir rök fyrir neikvæðri aðferðanálgun við almenna mótun stofnana og einkum og sér í lagi varðandi gerð stjórnlagaþinga. Það skiptir máli að skipuleggja starfsemi þingsins svo að úr megi verða skilvirk stofnun sem skili af sér góðri stjórnarskrá. Markmið jákvæðrar aðferðanálgunar væri að velja skynsama og dyggðum prýdda fulltrúa á þingið. Elster telur hins vegar að reynslan og fræðin geti sýnt okkur að slík aðferð muni ekki vera líkleg til árangurs. Það besta sem unnt sé að gera er að reisa þingið á skipulagi sem lágmarkar áhrif hagsmunatengsla, ástríðna, fordóma og mismununar á ákvarðanatöku. Mikilvægar valbreytur við skipulagningu stjórnlagaþings lúti m.a. að stærð og staðsetningu þess, hvort samræður og atkvæðagreiðslur þess fari fram fyrir opnum eða luktum dyrum, aðferðunum sem beitt er til að velja fulltrúa á þingið, og dagskrá þess.

Fyrirlestur Elsters var annar fyrirlesturinn af þremur sem EDDA stendur fyrir á vormisseri 2011 í samstarfi við Centre for Advanced Studies in the Social Sciences in París (EHESS), franska sendiráðið á Íslandi og innanríkisráðuneytið. Hann er liður í samstarfsverkefni EDDU og EHESS um gerð stjórnarskráa og pólitísk og réttarfarsleg úrræði á umbreytingatímum (transitional justice).  Þriðji fyrirlesturinn verður haldinn 31. maí, en þá mun Pasqale Pasquino, heiðursprófessor við lögfræðideild New York-háskóla, flytja erindi.

Sjá nánar hér